Vefur í vinnslu
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Nýr vefur Akureyrarbæjar er í vinnslu. Vinsamlegast beinið öllum athugasemdum til vefstjórnar, vefstjorn@akureyri.is
Fyrsti skóladagurinn er mikilvægur áfangi í lífi hvers barns.
Á Íslandi er skólaskylda fyrir öll börn sem hafa náð sex ára aldri eða verða sex ára á árinu. Hjá Akureyrarbæ eru starfræktir níu grunnskólar og börn eiga rétt á skólavist í sínum hverfisskóla.
Skráning í 1. bekk í grunnskóla fer fram í febrúar. Foreldri/forráðamaður skal sækja um skólavist og er það gert hér.
Þegar opnað er fyrir skráningu, stendur verðandi nemendum í 1. bekk og foreldrum/forráðamönnum þeirra til boða að koma í heimsókn, skoða skólana og hitta kennara og stjórnendur. Leikskólar senda nánari upplýsingar um heimsóknadaga á foreldra/forráðamenn. Þá eru heimsóknadagar einnig auglýstir á heimasíðu Akureyrarbæjar og inni á heimasíðum skólanna í febrúar ár hvert. Eftir að innritun lýkur bjóða skólar verðandi nemendum sínum ásamt foreldrum/forráðamönnum á kynningu þar sem þeim gefst tækifæri til að hitta stjórnendur og verðandi umsjónarkennara aftur. Kynningarnar eru auglýstar á heimasíðum skólanna sem og í tölvupósti til foreldra/forráðamanna.
Skólasetning er alla jafna fyrir nemendur í 2. – 10. bekk. Tímasetning skólasetningar er auglýst á heimasíðu skólanna. Þau börn sem eru að byrja í 1. bekk fá boð um að hitta umsjónakennarann sinn ásamt foreldrum/forráðamönnum í upphafi skólaárs. Fyrstu dagar nemenda í 1. bekk eru því viðtalsdagar og því ekki hefðbundnir skóladagar. Fjöldi viðtalsdaga ræðst af fjölda nemenda og geta því verið frá einum degi upp í nokkra daga. Eftir að viðtalsdögum lýkur mæta nemendur 1. bekkjar samkvæmt stundatöflu.
Akureyrarbær útvegar öllum grunnskólabörnum ritföng til notkunar í skólanum. Foreldrar útvega skólatösku, ritföng til afnota heimafyrir, íþrótta- og sundfatnað.
Skóladagatöl eru gefin út árlega og hafa að geyma upplýsingar varðandi skipulag skólaársins, helstu viðburði og uppbrotsdaga hvers skóla. Hver skóli gefur út sitt skóladagatal sem finna má á heimasíðum skólanna.
Vetrarfrí og haustfrí eru í öllum grunnskólum Akureyrarbæjar. Haustfrí eru að jafnaði fyrsta mánudag og þriðjudag eftir 20. október og vetrarfrí að jafnaði fimmtudag og föstudag eftir öskudag ár hvert. Frístundaheimili eru opin á þessum dögum en þó með skertri opnun einhverja daga. Nánari upplýsingar um vetrarfrí, haustfrí og skipulagsdaga eru að finna á skóladagatölum skólanna og inni á heimasíðum skólanna.
Allir grunnskólar á Akureyri hafa mötuneyti þar sem nemendum býðst að fá heitan mat í hádeginu án endurgjalds. Samræmi er á milli matseðla í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar, þar sem farið er eftir fjögurra vikna skipulagi. Flestir grunnskólar bjóða einnig upp á mjólk og ávexti í morgunhressingu gegn vægu gjaldi. Skrá þarf barn í matar- og ávaxtaáskrift í gegnum Völu kerfið og er kostnaður samkvæmt gjaldskrá Akureyrarbæjar. Ef barn borðar ekki þann mat sem er í boði í skólanum er mikilvæg að það sé nestað að heiman með næringarríku og hollu fæði. Ekki er leyfilegt að koma með sætabrauð, gos eða nammi nema með leyfi kennara og þá á tyllidögum.
Hér eru matseðlar skólanna
Sækja um mataráskrift í gegnum Völu
Ef barn er með fæðuofnæmi eða óþol eru foreldrar/forráðamenn beðnir um að upplýsa hjúkrunarfræðing skólans um það. Nauðsynlegt er að framvísa læknisvottorði til staðfestingar um ofnæmi.
Akureyri hefur verið Heilsueflandi samfélag frá árinu 2015 og sækja nemendur íþróttir og sund frá upphafi skólagöngu. Mikilvægt að allir hafi viðeigandi klæðnað meðferðis þá daga sem íþrótta- og sundtímar eru. Frekari upplýsingar um nauðsynlegan búnað eru sendar til foreldra frá stjórnendum eða íþróttakennurum.
Akureyrarbær býður upp á frístundastyrk fyrir öll börn á grunnskólaaldri. Hægt er að nýta styrkinn til að Gjaldskrá Akureyrarbæjar.
Hér eru nánari upplýsingar um frístundastyrkinn.
Heilsuvernd skólabarna í grunnskólum Akureyrar er sinnt af hjúkrunarfræðingum frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN). Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru forvarnir, fræðsla, skimanir og bólusetningar. Nánari upplýsingar um heilsuvernd skólabarna er að finna á vefsíðum skólanna og inni á Heilsuveru.
Mikilvægt er að tilkynna strax fjarvist ef barnið kemst ekki í skólann og skal það vera tilkynnt til ritara viðkomandi skóla eða í gegnum Mentor kerfið. Í Hlíðarskóla er mikilvægt að hringja inn öll veikindi. Nauðsynlegt er að tilkynna alla daga sem barn mætir ekki. Ef barnið er mikið fjarverandi er unnið eftir samræmdu verklagi grunnskólanna um stuðning við börn.
Fyrir skammtímaleyfi eða leyfi í einstökum tímum, skal óska eftir því hjá umsjónarkennara viðkomandi skóla eða skólastjórnendum. Ef óskað er eftir leyfi fyrir þrjá eða fleiri daga þarf að óska sérstaklega eftir því við skólastjóra og fylla út leyfisbréf sem finna má á heimasíðum skólanna. Ef tímabundin undanþága barns frá skólagöngu er samþykkt er það á ábyrgð forráðamanna að tryggja að barnið stundi nám sitt á meðan það er fjarverandi sbr. 15. gr. grunnskólalaga frá 2008.
Samræmdar símareglur tóku gildi í öllum grunnskólum Akureyrarbæjar í ágúst 2024. Símafrí þýðir að símar eða önnur snjalltæki eru ekki leyfð á skólatíma, hvorki í skólanum eða á skólalóð. Leiðin milli skóla og íþróttamannvirkja telst til skólalóðar. Á föstudögum er nemendum á unglingastigi heimilt að nota síma í frímínútum á skilgreindum svæðum sem ákvörðuð verða í hverjum skóla. Sé reglum um símafrí ekki fylgt eftir fær nemandi áminningu og tækifæri til að setja símann á viðeigandi stað.
Frístund er í boði í öllum grunnskólum Akureyrarbæjar fyrir börn frá 1. – 4. bekk eftir skólatíma, til kl. 16:15. Skráning fer fram í gegnum Völu frístund.
Félagsmiðstöðvarnar eru ætlaðar nemendum í 8.-10. bekk en einnig er í boði opið starf og klúbbastarf fyrir miðstig grunnskóla. Hér eru nánari upplýsingar um FÉLAK.
Þar sem skólaval er á Akureyri geta foreldrar sótt um annan skóla en hverfisskólann. Sækja þarf um í gegnum þjónustugátt Akureyrar ef óskað er eftir að barnið skipti um skóla. Nánar hér. Hægt er að sækja um námsvist í öðru sveitarfélagi þó barnið sé með lögheimili á Akureyri, en um það gilda ákveðna reglur. Mikilvægt er að foreldrar/forráðamenn kynni sér vel reglurnar um námsvist í öðru sveitarfélagi áður en sótt er um. Sækja þarf um í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar
Allt skólastarf í grunnskólum Akureyrarbæjar byggir á stefnu yfirvalda um menntun fyrir alla. Þá hafa allir grunnskólar Menntastefnu Akureyrarbæjar að leiðarljósi sem ber heitið Með heiminn að fótum sér. Meginmarkmið stefnunnar er að börnum séu skapaðar aðstæður til að geta sem fullorðnir einstaklingar borið ábyrgð á eigin menntun, heilbrigði og velferð.
Öll börn og foreldrar skulu hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þess er óskað. Hér eru nánari upplýsingar um farsæld barna.
Akureyrarbær er barnvænt sveitarfélag.
Samtaka- svæðisráð foreldra nemenda í grunnskólum Akureyrabæjar er samstarfsvettvangur foreldra barna í grunnskólum Akureyrarbæjar og málsvari foreldra grunnskólanemenda í sveitarfélaginu. Tilgangur Samtaka er að styrkja rödd foreldra sem hagsmunahóps í sveitarfélaginu og sameina krafta þeirra til góðra verka í skólamálum. Sjá reglur.