Daglegt starf
Hér má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir daglegt starf á Iðavelli
Fatnaður:
Klæðnaður barnanna þarf að vera í samræmi við veðurfar og hafa ber í huga að veður getur breyst snögglega. Merkja skal föt barnanna á greinilegan hátt, sérstaklega útiföt. Nauðsynlegt er að hafa aukafatnað í leikskólanum. Aukaföt barnanna eru geymd í plastkössum á hillu í forstofunni, og mikilvægt að bæta í þá eftir þörfum og yfirfara reglulega. Til hægðarauka höfum við tekið saman lista um nauðsynlegan búnað sem foreldrar geta fengið hjá deildarstjórum. Í leikskólanum er unnið með ýmis efni og áhöld sem geta skemmt föt. Vinsamlegast gætið þess að barnið sé ekki í fötum sem ykkur er sérstaklega sárt um eða hindra þátttöku barns í verkefnum.
Svefn, hvíld og matur:
Eftir hádegismat er farið í hvíld á öllum deildum. Fyrirkomulag hvíldar fer eftir aldri og þroska barnanna á hverri deild, yngri börnin sofa flest, en þau eldri hvíla sig og hlusta á sögur eða tónlist. Svefn barna er í samvinnu við foreldra og best er að ræða þarfir og óskir við starfsfólk deilda. Svefn er skráður í Karellen ásamt því hve vel barn borðar á yngri deildum. Máltíðaskráningar eru ekki á eldri deildum en rætt er við foreldra ef ástæða er til, annars gerum við ráð fyrir að börnin borði almennt vel. Hlaðborð er á eldri deildum.
Veikindareglur:
Veikindareglur: Leikskólinn er ætlaður frískum börnum. Börn sem ekki eru fullfrísk ættu ekki að koma í leikskólann bæði vegna smithættu og til að reyna að draga úr vanlíðan barns. Ef barn veikist í leikskólanum, er forráðamönnum gert viðvart. Ekki eru gefin lyf í leikskólanum nema til komi vottorð frá lækni um að lyfjagjöf sé nauðsynleg þann tíma sem barnið dvelur í leikskólanum. Innivera eftir veikindi; innivera er einungis heimil ef barn hefur átt við langvarandi og alvarleg veikindi að stríða, s.s. lungnabólgusýkingar, sjúkrahúsdvöl vegna sýkinga eða annað slíkt.