Beint í efni

Fasteignagjöld

Eigendur fasteigna greiða fasteignagjöld til sveitarfélagsins. Gjöldin byggja á fasteignamati húsa og lóða ásamt stærð eigna. Álagningarstofninn er fenginn úr fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 31. desember ár hvert.

Fasteignaskattur er lagður á nýjar lóðir og mannvirki í hlutfalli við ársálagningu frá næstu mánaðamótum eftir að eignirnar eru skráðar og metnar í fasteignaskrá.

Gjöldin skiptast í fasteignaskatt, lóðarleigu, vatnsgjald og fráveitugjald, auk sorphirðugjalds fyrir íbúðarhúsnæði. Þau eru innheimt í átta jöfnum greiðslum frá 3. febrúar til 3. september, með eindaga 30 dögum eftir gjalddaga.

Álagningarseðlar fasteignagjalda hjá Akureyrarbæ eru aðgengilegir í þjónustugátt sveitarfélagsins og á island.is.

Álagningarseðlar eru ekki sendir út á pappír og sparar það bæði fé og fyrirhöfn fyrir utan að vera mun umhverfisvænna. Álagning dreifist líkt og áður á 8 gjalddaga frá 3. febrúar til 3. september og eindagi er 30 dögum síðar.

Álagningarprósenta fasteignaskatts fyrir íbúðarhúsnæði er óbreytt frá fyrra ári og er 0,31% af fasteignamati. Álagningarprósenta af öðru húsnæði er óbreytt 1,63% og 1,32% af fasteignamati skóla, sjúkrahúsa, bókasafna og íþróttahúsa. Sjá nánar í gjaldskrá.

Heildarálagning fasteignagjalda ársins 2025 er 6.444 milljónir króna, þar af er fasteignaskattur 3.817 milljónir, lóðarleiga er 840 milljónir, vatnsgjald 479 milljónir króna, fráveitugjald 768 milljónir og sorphirðugjald 540 milljónir króna. Sorphirðugjald er lagt á 9.069 heimili sem er fjölgun um 313 heimili frá fyrra ári. Á árinu 2024 nam álagning fasteignagjalda samtals 5.857 milljónum króna.

873 lífeyrisþegar fá afslátt

Bæjarstjórn samþykkti breytingu á reglum um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum og hækkaði tekjumörk. Nú fá 873 elli- og örorkulífeyrisþegar afslátt og nemur heildarfjárhæð afsláttar 83 milljónum króna eða 95 þúsund krónum að meðaltali.

Afsláttur ræðst af tekjum og getur hæstur orðið 149.500 krónur. 150 fasteignaeigendur njóta hámarksafsláttar og 344 fasteignaeigendur njóta fulls afsláttar af fasteignasköttum sínum. Árið áður nutu 962 afsláttar af fasteignaskatti og nam heildarfjárhæðin 90 milljónum króna. Reglurnar er hægt að nálgast hér. Afsláttur af fasteignaskatti er reiknaður út frá tekjum samkvæmt skattframtali 2024 og þarf ekki að sækja sérstaklega um.

Gjaldskrá fasteignagjalda 2025

Reglur um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum hjá Akureyrarbæ árið 2025

  • Reiknivél fasteignagjalda

    Reiknaðu áætluð fasteignagjöld fyrir þína eign

Afsláttur

Tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er veittur afsláttur af fasteignagjöldum samkvæmt reglum sem eru endurskoðaðar árlega. Afsláttur reiknast sjálfkrafa á þá aðila sem eru undir tekjumörkum.

Telji íbúðareigandi sig ekki fá afslátt sem hann á rétt á skv. Reglum um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum hjá Akureyrarbæ, skal hann sækja um afslátt í þjónustugátt Akureyrarbæjar.

Styrkir

Bæjarstjórn Akureyrar er heimilt að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi æskulýðs - og mannúðarsamtaka sem ekki er rekin í ágóðaskyni, sbr. heimild í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Sótt er um þessa styrki á þjónustugátt Akureyrarbæjar.

Smelltu hér til að finna Reglur um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum hjá Akureyrarbæ og Reglur um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka